23.01.2012 23:09
Meira fé meira fé meira fé
Fegurðin á fjöllum á þessum árstíma er fyrir löngu orðin þekkt í það minnsta hjá þeim sem kunna að meta kyrrð og ró.
Í dag fóru vaskir sveinar héðan úr sveitinni inní Stóra-Langadal til að kanna hvort einhverjar eftirlegukindur væri þar að finna. Kapparnir fóru á snjósleðum, fjórhjólum og bílum. Ferðin var svo sannarlega ekki til einskis því þeir náðu þar sex kindum. Á leiðinni heim brunuðu svo Mummi og Ásberg í Hraunholtum sem að báðir voru á snjósleðum um fjöllin og fundu fjórar kindur í viðbót á Sátudalnum. Við hér í Hlíðinni áttum eina veturgamla kind í hópnum þannig að nú höfum við heimt lamb og rollu sitthvorn daginn.
Ekki væri nú slæmt að heimta hrút á morgun...........fyrst þetta er nú komið í gang.
Það er góð tilfinning nú þegar spáð er vitlausu veðri að tíu kindur séu komnar á hús í dag.
Sátan hefur nú stundum verið hlýlegri þegar ég hef riðið yfir Flatirnar á sumrin en falleg var hún engu að síður í dag. Þau eru ekki mörg stráin sem að uppúr hafa staðið fyrir kindurnar að bíta við Sátuna en hópurinn leit bara vel m.v árstíma og aðstæður.
Stóri-Langidalurinn var ansi hvítur þó svo að þar sé nú yfirleitt beit fyrir nokkra svanga munna.
Þarna er svo Hraunholtabóndinn Ásberg sem var ferðafélagi ljósmyndarans í dag.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir