09.06.2011 00:03
Evran góða...............
Um daginn fékk ég skemmtilegt símtal en það var frá Halli Magnússyni frænda mínum sem að ólmur vildi kaupa af mér gimbur. Mér fannst erindið skondið og í gegnum hugann flaug að nú væri hann loksins hættur að hugsa um ESB og hefði ákveðið að gerast sauðfjárbóndi.
Í góðum viðskiptum reynir maður alltaf að sýna þjónustulund og uppfylla þarfir viðskiptavinarins svo að ég byrjaði á því að spyrja Hall hvaða lit hann vildi hafa á gimbrinni.
Ég er vön því að þeir sem að kaupa fé af okkur vilji gjarnan einhverja sérstaka liti og stundum reynist erfitt að uppfylla óskirnar en ég legg mig samt alltaf fram um að sinna óskum kaupenda.
Hallur var með það algjörlega á hreinu hvaða litur ætti að vera á gimbrinni ......................hún á að vera blá með gulum stjörnum (fánalitir ESB).
Og mér sem hafði dottið í hug að hann væri hættur að hugsa um ESB.
Nei aldeilis ekki og þar sem að ég reyni að uppfylla óskir sauðfjárfjárfesta var ekkert annað í stöðunni en að ,,redda,, málinu og það strax.
Hér fyrir neðan getið þið séð hvað Hallur var að fara þegar hann fjárfesti í gimbrinni góðu.
G Valdimar góður og gegn framsóknarmaður var sem sé að fagna hálfraraldar afmæli sínu og þar sem að hann og fjölskyldan hafa komið sér vel fyrir í Straumfirði er ekkert að vanbúnaði að hefja sauðfjárrækt.
Með góðfúslegu leyfi sauðfjárfjárfestanna er hér birt gjafabréfið sem að fylgdi gjöfinni góðu.
50 ára afmæli 21. maí 2011
G Valdimar Valdemarsson
sauðfjárbóndi með meiru
Gimbrin EVRA
Frá Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal
Greinargerð með afmælisgjöf fjölskyldna
Halls Magnússonar, Gests Guðjónssonar og Gísla Tryggvasonar
Kveðja frá sauðfjárræktandanum
Sigrúnu Ólafsdóttur bónda að Hallkelsstaðahlíð
Sæll vertu.
Ættartalan er góð. Hreinræktaðar eðal Hlíðarkindur með sögum við hvern ættlið, lífrænt í meiralagi með náttúrulegum fjallajurtabragði sem að smakkast ekki næstu 12 árin.
Hefur ekki komið nálægt endurheimtu votlendi eða fundið stóriðjubragð. Þekkir ,,refi,, af eigin raun bæði loðna og ESB refi...óttast báða jafn mikið.
Nákvæm ættartala afhendist að loknum leitum sem að sjálfögðu fylgja með sem kvöð en mun að þeim loknum verða hið mesta happ.
Með bestu kveðju.
Sigrún
Eyrnamark til G Valdimars Valdimarssonar
Stýft, fjöður aftan hægra
Hangfjöður framan vinstra
Með í gjöfinni er eyrnamark enda er Evra enn ómörkuð.
Markavörður Mýrasýslu Þórir á Hóli í Norðurárdal hefur skráð eyrnamarkið
stýft, fjöður aftan hægra,
hangfjöður framan vinstra
Markið er Straumfjarðarmark og var fyrrum í eigu Huldu sem var ráðskona hjá
Guðbjarna á sínum tíma.
Njóttu vel afurða Evru frá Hallkelsstaðahlíð og megi eyrnamarkið verða þér til gæfu!
Til hamingju með fimmtugsafmælið!
Hallur Magnússon Gestur Guðjónsson Gísli Tryggvason
Sauðafjárstofninn í Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal
Sauðfjárræktin í Hallkelsstaðahlíð á sér langa sögu, en sá stofn sem nú er ræktað útaf á ættir sínar að rekja í Vestur- Barðastrandasýslu. Árið 1950 í kjölfar niðurskuðrar vegna mæðuveiki var sóttur nýr stofn m a frá bæjunum Vesturbotni, Hvestu og Fífustöðum í Barðastrandasýslu.
Þennan stofn hafa svo föðurbræður mínir þeir Einar, Ragnar og Sveinbjörn Hallssynir ræktað með góðri aðstoð áhugasamra ættingja þar til Sigrún Ólafsdóttir systurdóttir þeirra tók við búinu.
Stofninn sem við fengum að Hallkelsstaðahlíð var góður og því gott fyrir Sigrúnu og fjölskyldu að njóta leiðsagnar þeirra Ragnars og Sveinbjörns, en Einar lést fyrir nokkrum árum.
Vetrarfóðrað fé í Hallkelsstaðahlíð er á áttundar hundrað og því góð tækifæri til ræktunar.
Markmið búsins að Hallkelsstaðahlíð í sauðfjárræktinni er að rækta afurðarmiklar og frjósamar ær. Ekki er verra að viðhalda litum og sérstökum afbrigðum þó ekki á kostnað afurða. Til gamans má geta þess að rúmlega 30% fjárstofnsins er mislitur. Flestir grunnlitir sem þekkjast í íslenska fjárstofninum finnast í hópnum.
Markmiðið er að hafa 2-3 forustuær og annað eins af ferhyrndum ám hverju sinni. Á hverju ári nýtum við okkur þjónustu hrútastöðvarinnar og sæðum nokkra tugi áa til að bæta stofninn.
Til gamans má geta þess að á Hallkelsstaðahlíð eru notuð mismunandi mörk eftir því af hvaða kyni (ætt) kindin er. Þannig eru í notkun nokkur mörk sem hafa verið um margara áratuga skeið í fjölskyldunni. Öll mörkin sem notuð hafa verið um langt skeið eiga það sameiginlegt að hafa alltaf markið tvístíft aftan hægra. Á vinstra eyra eru svo mismunandi mörk.
Á árum áður þegar brennimörk á horn voru notuð hér í Hlíðinni var það bæjarnúmerið sem ennþá er í fullu gildi 19SH1 sem smellt var á annað hornið og síðan HL'IÐ á hitt.
Ekki hefur verið brennimerkt á Hlíð síðan í kringum 1970 en í minningunni var það mjög spennandi atburður.. Þess vegna hefur því skotið uppí hugann hjá Sigrúnu öðru hverju hvort ekki ætti að endurvekja þennan sið og prófa að brennimerkja. En það hverfur mjög fljótt úr huga Sigrúnar aftur að hennar sögn þegar hún rifjar upp hvað kókósbollur voru góðar í minningunni alveg þangað til ég smakkaði þær aftur.
Þess má geta að Einar heitinn föðurbróðir minn og móðurbróðir Sigrúnar var mikill áhugamaður um mörk og markaskrár. Hann átti að líkindum stærsta markaskráasafn í einkaeigu á Íslandi.
Það var kveikjan að ritgerðarsmíði minni "Um sauðfjármerkingar á Íslandi" þegar ég stundaði nám í sagnfræði og þjóðfræði við Háskóla Íslands. Sú ritgerð kom út á prenti í Handbók bænda á sínum tíma.
Hallur Magnússon
Fyrrverandi kúsasmali og túnrollusmali að Hallkelsstaðahlíð
Gimbrin Evra frá Hallkelsstaðahlíð í fánalitum Evrópusambandsins