16.09.2009 23:06
Fyrsti í leitum...............
Á þessari mynd er hún Ansu okkar frá Finnlandi að vinna með hest í hringgerðinu, Deila athugar hvort að allt fari ekki vel fram.
Það rigndi mikið í dag og fyrripartinn var það næstum eins og í leitunum í fyrra sem sagt rok í kaupbætir. En föstudagurinn aðal leitardagurinn lítur vel út samkvæmt nýjustu veðurspám.
Annars er ég að spá í að nýta mér speki sem mér var einu sinni sögð en þá í annari merkingu.
Það var þannig að kona nokkur var voða niðurdregin vegna þess að hana hafði dreymt draum sem táknaði eitthvað voðalegt samkvæmt draumráðningabókinni hennar. Þeim sem voru í kringum hana og tóku þátt í þessum dapurlegu umræðum leið ekki vel og reyndu eftir fremsta megni að hughreysta hana. Þá barst þeim þessi góði liðsauki sem var kona á áttræðis aldri sem sagðist hafa fundið góð ráð við svona málum fyrir u.þ.b 50 árum síðan.
Það væri til fullt af draumráðningabókum og ef að draumurinn boðaði illt í einni bók þá væri bara að fara í þá næstu. Draumarnir væru hvort eð er alltaf fyrir giftingu, dauða eða langlífi svo að ef að þér hugnaðist ekki dauðinn þá yrðir þú að velja langlífi eða giftingu.
Þannig að ég les veðurspá á mörgum stöðum og hlusta líka á hana í útvarpinu. Vel svo bara þá bestu og hef gott veður sem oftast.
Það var fyrsti í leitum í dag og við tókum smá upphitun fyrir næstu daga. Ég, Skúli og Astrid fórum af stað og Sveinbjörn veitti faglega ráðgjöf úr bílnum. Við smöluðum það sem við köllum inní hlíð og útá hlíð. Þetta er eina svæðið sem að við smölum ekki á hestum svo að þarna reyndi á lipurð og þol. Allir skiluðu sér heim hressir og kátir svo að við teljumst því vera bara nokkuð spræk. Afraksturinn voru ríflega hundrað kindur.
Í dag komu þær mæðgur Bráðlát og Svartasunna heim eftir dvölina hjá honum Stikli frá Skrúð. Gott fólk tók þær mæðgur með sér áleiðis hingað vestur þar sem við vorum í smalastússi svo að ég hef ekki ennþá fengið að vita hvort að Bráðlát er fengin.
Svartasunna hafði stækkað mikið og var spök og skemmtileg.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir