02.01.2009 22:22
Janúar er fínn
Sæl verið þið !
Þá er kominn janúar skemmtilegur mánuður með dögum sem alltaf verða lengri og lengri þegar á mánuðinn líður. Þó svo að jólin og allt sem þeim tilheyrir sé gott og skemmtilegt þá er alltaf ljúft þegar lífið fer aftur í sinn vana gang. Hjá okkur í sveitinni eru svo sem flestir dagar nokkuð svipaðir á meðan allar skeppnur eru á gjöf, en þó meiri róleg heit um hátíðirnar. Þegar ég kom út í morgun var veðráttan og hitastigið þannig að ég hefði orðið nokkuð ánægð hvort heldur í apríl eða maí. Nei annars það var full dimmt fyrir vorið. Janúar er bara fínn.
Úr hesthúsinu er bara allt gott að frétta, reyndar flest hrossin að byrja sína dagskrá en þó eru nokkur sem eru bara að komast í skemmtilegt form. Stóðhestarnir fengu mikinn tíma í dag trimmuðu, viðruðu sig og að lokum var farið í alsherjar þrif og hárgreiðslu.
Er byrjuð að vinna svolítið í honum Glundroða mínum Frægssyni, sennilega hefur hann verið taminn í fyrra lífi. Allavega er hann enn sem komið er fyrirmyndar nemandi.
Folöldin eru mjög ánægð með nýju klippinguna og gaman að sjá hvað allt verður þurrt og snyrtilegt í stíunum hjá þeim þegar þau hafa verið rökuð. Fengu steinefnablöndu útá heyið í fyrsta sinn í morgun, voru alveg viss um að þetta væri eitthvað stórhættulegt og henntust út og suður áður en þau þorðu að smakka.
Smelli inn einni vormynd hérna með, það er svo gott að sjá vorið í janúar.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir