Færslur: 2013 Október

17.10.2013 21:40

Landinn í morgunkaffið, prestar allt um kring og forustudrama.....

Tæknin leyfði enga myndbirtingu hér á síðunni í þetta skiptið enda kannski eins gott.
Að finna mynd sem hæfði fyrirsögninni er vandasamt og sennilega er mitt myndasafn ekki í stakk búið til að skaffa svoleiðis gögn.

Síðustu dagar eru búnir að vera nokkuð viðburðaríkir svo sem eins og flestir mínir dagar.
Einn daginn fékk ég ,,Landa,, í morgunkaffið sem að mínu mati hljómar vel og er bara notalegt.  En þegar af því fréttist fóru nokkrir velunnarar mínir að senda mér óumbeðnar ráðleggingar.
Flest voru þessi hollu ráð tengd því að ekki væri nú æskilegt að stunda landadrykkju snemma morguns og hæfði það mér engan veginn. Já nokkrir höfðu áhyggjur af húsfreyjunni......
Þrátt fyrir þessi góðu ráð er ég viss um að landi af þessari tegund gerir flestum gott.
Gísli Einarsson er góður gestur í morgunkaffið, takk fyrir komuna Gísli.
Brot af því sem fram fór eftir morgunkaffið má sjá á RUV sennilega næsta sunnudagskvöld.

Af því ég veit þið hafið það bara fyrir ykkur þá ætla ég að deila smá áhyggjum sem ég hef.
Það var bara venjulegur dagur í dag eða það hélt ég allavega en áður en dagurinn var liðinn hafði ég fengið tvo presta í heimsókn og hringingu frá þremur. 
Já já þetta er alveg satt og sem betur fer var ekkert að.
Þó svo að ég viti að átta prestsefni hafa sótt um stöðuna á Staðarstað og séu þessa dagana að líta á söfnuðinn, er mér ekki meira en svo rótt.
Ósjálfrátt spurði ég mig hvort eitthvað sérstakt ,,sóknarfæri,, væri í mér sem safnaðarbarni ?
Ég fór yfir þetta í huganum og fann svo sem ekkert augljóst en hver veit ?
Þar sem ég hef ekki slitið kirkjubekkjunum neitt að ráði og þarf vonandi ekki að gera á næstunni fannst mér þetta heldur ríflegur skammtur á einum degi.
Auðvitað vil ég hafa prest, góðan og helst líka svolítið skemmtilegan held það sé kostur.
Prestar eiga að vera þar sem þeir hafa alltaf verið og notast eftir þörfum.
En bara svo það misskiljist ekki þá er gaman að hitta og heyra í þessu góða fólki og vona ég að hinir birtist á morgun. Verið hjartanlega velkomin nú er ég klár :)
Ég var bara svo óundirbúin í dag og ekki vön að taka inn svona stóran skammt á einum degi.

Þeir sem eiga forustufé nú eða smala því vita að ekki er til neitt betra til að ná upp lágum blóðþrýstingi.............
Bráðum ætla ég að segja ykkur fréttir af síðustu smalamennsku þar sem forustuféð var í aðalhlutverki. Í þeirri frétt verður aðeins farið inná andleg málefni og ýmislegt fleira sem getur nýst til að gera öll samskipti betri...................
En látum líða aðeins lengri tíma ég er ekki viss um að ,,minn,, tími sé endilega kominn.


14.10.2013 22:18

Haustblíðan



Dásamlegt haustveður er munaður sem vel á að njóta til góðra og skemmtilegra verka.

Smalamennsku verktíðin er að mestu á enda og nú eru það bara frumtamningar og þjálfun sem hér eru stundaðar af fullum krafti. Já síðasti alvöru hópurinn fór í Skagafjörðinn í dag og þá eru bara eftir örfá lömb sem fara síðar. Smalamennskur gengu mjög vel í síðustu viku og ekki var síður góður gangur í fjárraginu um helgina. Það var góður hópur sem kom til okkar um helgina og hjálpaði til eins og venjulega þegar mikið liggur við í kindastússinu.
Alltaf gott að eiga góða að takk fyrir alla hjálpina, þið eruð ómetanleg.

Í dag var dregið undan þó nokkrum hóp hrossa sem nú eru farin í haustfríið góða.
Góður hópur er samt á járnum bæði í frumtamningu og önnur í söluþjálfun.
Mummi er farinn til Svíþjóðar að kenna og heldur námskeið á nokkrum stöðum bæði þar sem hann hefur verið áður og eins hafa bæst við nýjir staðir.
Bara spennandi hjá honum að hitta nemendurna sína frá því í fyrra aftur og eins að bæta við nýjum.

Norðurljósin voru falleg í kvöld og reyndi húsfreyjan að fanga þau á mynd en eitthvað eru tæknimálin að ergja hana því ekki vildu myndirnar inná síðuna.
Koma tímar koma ráð bara ef að þið bíðið aðeins.

10.10.2013 09:26

Fréttabrot



Svona var fallegt veður hjá okkur í gær logn og blíða en snjólínan nokkuð lág en þó ekki svo.
Allavega var meiri snjór í henni Reykjavík þegar ég var þar á þriðjudaginn já og miklu meira vesen. Það er á þannig dögum sem ég þakka fyrir það að búa uppí fjöllum og þurfa ekki nývöknuð að blanda geði við ,,sléttjárnaða,, snillinga.
Mánudagur og þriðjudagur voru fundadagar  hjá okkur í Fagráði í hrossarækt. Dagskráin var löng og gestirnir sem mættu á fund til okkar voru margir og höfðu mikið fram að færa.
Á haustin er fundaverktíð hestamanna og mikið framundan í þeim efnum.

Sauðamessan í Borgarnesi var haldin um síðustu helgi í fallegu en köldu veðri. Ég hjálpaði aðeins til við messuhaldið (þó ekki prestlærð) sem var gaman en mikið asssskoti var nú kalt.
Um kvöldið var svo brunað á ball með Hvanndalsbræðrum sem haldið var í Reiðhöllinni.
Já bara grín, glens og gaman, allt til að hilla blessaða sauðkindina.



Þær voru kátar með okkur í gær þessar þegar þeim var sleppt í haustgirðinguna sína.
Folaldshryssurnar og nokkur sparitryppi en þetta stóð fær til afnota svokölluð Þrep með kafgrasi, skjóli og smá há í desert. Ekki skemmir að í þessari girðingu eru þær alltaf undir góðu eftirliti úr gamla bænum. Já Lóa og Svenni telja stóðið fyrir okkur seint og snemma.



Allt tekur enda og svo var einnig með heyskapinn þetta árið þó svo að húsfreyjan væri farin að efast. Rigning, rok og traktorsbilanir sáu til þess að töðugjöldin voru ekki alveg á tíma þetta árið. En allt hafðist þetta og þrátt fyrir að ekki hafi allt verið slegið sem til stóð er rúllustabbinn stór og inniheldur á annað þúsund rúllur.
Heyin eru þó misgóð allt frá því að vera blaut og úrsér sprottin uppí það að vera þurr úrvals há. En grínlaust þá lítur þetta bara mjög vel út.
Já svo er það stórhátíðaháin sem bara verður gefin á jólum og páskum..............enda dugar hún skammt og ekki mikið til af henni.



Leiðrétting........................
Mér urðu á þau leiðu mistök að nefna þessa flottu sauðfjárbændur frá Borgarnesi.
Þetta eru að sjálfsögðu Ólafur frændi minn Pálsson í Haukatungu, Þorsteinn Viggósson og Helga Ragnarsdóttir sauðfjárbændur á Jarðlangsstöðum.
Auðvita eru kindurnar með mikilvægara heimilisfang en bændurnir, biðst velvirðingar á þessum mistökum hér með :)



Fann þessa flottu mynd af ærslabelgjunum Astrid og Daníelu sem þarna eru í Vörðufellsrétt.

Um helgina verður svo lokatörnin í kindastússi en þá verður smalað, rekið inn og ásetningurinn valinn endanlega.
Eins og alltaf eru allir góðir velkomnir með okkur í atið og stuðið.
  • 1