16.09.2010 23:03

Fyrsti í réttum og hryssufréttir með.



Nú er allt að verða klárt fyrir réttirnar hér í Hlíðinni en þó vantar einn góðan í hópinn sem því miður getur ekki komið þetta árið. En hann kemur bara næst og verður með okkur.
Bestu kveðjur til Danmerkur Per frá öllum smölunum í Hlíðinni:)

Við byrjuðum aðeins að smala í dag hér í kring nánar tiltekið ,,inní hlíð og útá hlíð,,
Á morgun er það svo Oddastaðafjallið, veðurspáin er góð svo að það lítur bara vel út.

Í gær sóttum við Karúnu og Tign sem voru hjá honum Alvari frá Brautarholti útí Fellsöxl.
Karún var með 45 dag fyl og  Tign með 35 daga fyl aldeilis flott og nú bíður kella bara eftir því að fá hryssur :)
Perla vinkona mín frá Lambastöðum var líka hjá Alvari og að sjálfsögðu fylfull líka.
Fylprósentan hjá Alvari var mjög góð eins og reynar hjá velflestum hestunum sem að voru í boði hjá Hrossaræktarsambandinu hér á Vesturlandi.
Núna er það bara Skúta sem að er ókomin heim frá stóðhestum en hún er enn í góðu yfirlæti hjá Krissu vinkonu minni í Jaðri. Verður sótt strax eftir réttir.

Ég mun reyna að setja inn sjóðheitar réttarfréttir eins oft og færi gefst...........................

14.09.2010 23:22

Folaldaskoðun á Gunnlaugsstöðum.



Þessum varð vel til vina við fyrstu kynni Eyvindur og Moldi litli á Gunnlaugsstöðum.

Já í gær var brunað upp að Gunnlaugsstöðum til að líta á folöld.
Hugmyndin var að hjálpa góðum grönnum að finna fermingargjöf handa ungri dömu.



Ekki vantaði nú litadýrðina í þetta stóð rauðskjótt, moldótt, brúnskjótt, jarpskjótt og margir fleiri skemmtilegir litir.................



Hér kemur svo mynd af aðal erindinu en þetta er gripurinn sem að varð fyrir valinu og bíður þess nú að verða happagripur nýs eiganda. Hún sýndi ljómandi tilþrif bæði á tölti og brokki.
Ekki skemmir fyrir að hryssan er með hvíta kríumynd á hálsinum en auðvitað hinu megin.
Spurning hvort að það á eftir að hafa eitthvað með nafngiftina að gera?




Eftir að hafa skoðað allt stóðið vandlega með Þórði bónda var röllt heim í kaffi þar sem við áttum skemmtilegt spjall. Rifjaðar voru upp gamlar og nýjar sögur af góðum sveitungum.
Já það er alltaf gaman að rifja upp skemmtilega tíma með góðu fólki.
Takk fyrir okkur Þórður og Lína.


12.09.2010 23:15

Hressir krakkar á strumpastrætó..........



Þarna sjáið þið ,,Strumpastrætó,, af bestu gerð sem meðal annars hefur það hlutverk að flytja fólk í hesthúsið. Eins og þið sjáið þá er mannskapurinn vel við aldur og því alveg nauðsynlegt að fá far, meira að segja Snotra sleppir ekki svona ökuferð.



Hér eru hressar dömur þær Astrid frá Danmörku, Anne frá Þýskalandi og Sandra frá Svíþjóð.
Hún Sandra frá Svíþjóð hefur verið hjá okkur í viku en hún er hér á landi að kynna sér Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og í leiðinni að kynnast lífinu hjá okkur í sveitinni.
Sandra hefur hjálpað okkur mikið þennan tíma og vonandi hefur hún haft gagn og gaman af.
Í dag fór svo Sandra frá okkur á vit ævintýranna í Borgarfirði.
Takk fyrir skemmtilegan tíma Sandra.

Það rigndi heilmikið í dag en ekki gat ég nú séð að mikið hækkaði í vatninu, óumflýjanlegt að fara að huga að langri girðingu út á leirana svo að féð tolli heima meira en smá stund.

Ég horfði á stórskemmtilegan þátt um Ómar Ragnarsson í kvöld, þátturinn var gerður í tilefni af 70 ára afmælinu hans. Það var gaman að sjá öll myndbrotin sem að voru sýnd og rifja upp hvað hann hefur afrekað margt skemmtilegt.

Hreint ótrúlegur kallinn og athyggliverð spekin hans ,,láta sér leitt ljúft þykja,,
alltaf svo gaman að heyra eitthvað sem fær mann til að hugsa...............
,,

11.09.2010 22:21

Spennandi tamninga og söluhross.



Já þau eru mörg skemmtileg hrossin sem eru hjá okkur núna og eins og ég var búin að lofa um daginn þá koma hér fleiri myndir af tryppunum.
Þarna eru Krapi Gustsson og Mummi að leika sér á góðum degi.



Krapi er í miklu uppáhaldi hér á bæ enda ekki skrítið þar sem hann er bæði bráðefnilegur og skemmtilegur.



Þarna er eigandinn að athuga hvort það sé ekki allt með feldu hjá Krapanum.
Eins og þið sjáið þá fór vel á með þeim og alveg öruggt að Krapi þekkti eigandann vel.
Vonandi ber hann okkur þokkalega söguna.................hann Krapi.



Þetta par rakst ég líka á útá vegi þarna eru Anne og Muggur hress að vanda.

Annars er það helst að frétta héðan úr Hlíðinni að í dag var algjört hitamet miðað við að það er kominn 11 september. Hér komst hitinn í 22.5 stig svo að dagurinn var hreint yndislegur.
Mér var hugsað til þeirra sem að voru að smala í dag full heitt fyrir hesta, menn og tölum nú ekki um kindurnar sem alltaf eru í lopapeysunni.
Við erum búin að semja um gott veður næstu vikuna og sérstaklega næstu helgi, bíðum bara eftir formlegu svari.
Það er mikið riðið út þessa dagana enda hörkulið hér hjá okkur núna og fullt af skemmtilegum hrossum. Undirbúningur fyrir réttirnar er í fullum gangi svo það er í mörg horn að líta.
Húsfreyjan tekur rispur í bakstri á kvöldin og nær bara ágætis tilþrifum (að eigin áliti, svo kemur í ljós síðar hvort það á við rök að styðjast).
Er búin að baka sírópslengjur, formkökur, sítrónukökur, Frú Áslaugu og fleira.
Allt að gerast í Hlíðinni.................

Eins og þið hafið kannske tekið eftir höfum við sett inn nokkur ný söluhross og fleiri bætast við á næstunni. Svo erum við alltaf með fleiri hross til sölu sem að ekki hefur komist í verk að setja inná síðuna. Hvet ykkur til að fara inná Worldfeng og skoða hrossin okkar nóg að setja inn bæjarnafnið sem sagt frá ,,Hallkelsstaðahlíð,,

06.09.2010 21:58

Staðan í dag............



Þarna sjáið þið Guðdómlegan Hnappadal í baksýnisspeglinum mínum.

Já það getur verið nauðsynlegt að líta í ,,baksýnisspegilinn,, vega og meta stöðuna, rifja upp góðar stundir og gleyma þeim leiðinlegu. En það er víst eins gott að gleyma sér ekki við að horfa í spegill eins víst að maður keyri þá bara útaf.

Síðast liðinn fimmtudag var sónarskoðað hjá höfðingjanum Hlyn frá Lambastöðum eins og vænta mátti voru allar hryssurnar fylfullar. Dimma okkar var hjá kappanum og með 30 daga gamalt fyl. Allt undir,,kontrol,, hjá Eddu sem að klárlega er einn öruggasti sónarskoðari hér um slóðir og örugglega þolinmóðasti dýralæknir sem ég hef kynnst.
Við vorum í smá basli með að sannfæra eina hryssuna um að við værum traustsins verð og óhætt væri að láta okkur ná sér. Girðingin var stór og þýfð, hryssan stygg og við ,,rosalega,, hlaupaleg eða þannig.
Ég ætla ekki að segja ykkur hvernig þetta gekk en Edda og bláberin í stóðhestagirðingunni höfðu sem betur fer róandi áhrif á okkur svo að málið fékk farsælan endi.

Heldur betur hljóp nú snærið hjá húsfreyjunni þegar hún fékk sendingu af vestfjörðunum um daginn. Með öðrum orðum nú á ég fullt af dýrindis aðalbláberjasafti sem hressir, bætir og kætir. Þökk sé okkar góðu vinum í vestrinu.

Í gær smöluðum við stóðinu heim og tókum frá hóp af hestum sem að við vonumst til að geta notað í leitirnar. Útlitið benti ekki til þess að þau hafi liðið skort að undanförnu.
Þessar elskur hafa verið í fríi í nokkrar vikur en eru nú vonandi komin í stuð aftur.
Við fengum góða heimsókn úr Borgarnesi til stússa í þessu með okkur.
Takk fyrir komuna Þorgeir og co.

Nú er Anne okkar komin aftur og einnig hún Sandra frá Svíþjóð sem að ætlar að vera hjá okkur í viku. Duglegar og áhugasamar stelpur sem munar heldur betur um í öllu atinu.
Astrid kom heim í helgarfrí en er nú farin á vit ævintýranna noðrur í Eyjafjörð með hóp frá Landbúnaðarháskólanum á  Hvanneyri.






04.09.2010 22:42

Hólaútskrift 2010

 

 Hér á eftir kemur smá sýnishorn úr Hólaferðinni frá því í gær en svo getið þið líka smellt á ,,albúm,, hér á síðunni og séð meira.
Á þessari mynd eru tveir nýútskrifaðir reiðkennarar þeir Sólon Morthens og Sigvaldi Lárus Guðmundsson. Þeir hafa sem sagt lokið þriggja ár námi við skólann.
Aldeilis flottir í Félagsbúningi Félags tamningamanna, til hamingju drengir.




Hér koma þeir svo með sínum betri helmingum Þóreyju og Mörtu.
Báðir þessir reiðkennarar eru starfandi á suðurlandi Sólon í Hrosshaga og Sigrvaldi í Fellskoti.

Á reiðkennarabrautinni síðast liðinn vetur voru sjö nemendur en aðeins tveir mættu við útskrift.




Hér koma síðan ,,mínir,, Hólakrakkar Alma Gulla, Mummi og Halla María, gamla smelli sér með á myndina. En við söknuðum Helga sem stakk af í leitir.
Alma Gulla var að ljúka námi sem hestafræðingur og leiðbeinandi eftir eins árs nám en Mummi og Halla María útskrifuðust sem tamningamenn og þjálfarar eftir tveggja ára nám.




Sylvía Sigurbjörnsdóttir ,,bakaði,, strákana og náði bikarnum góða.
Á myndinni Árni Björn, Sylvía og Mummi.
Innilega til hamingju Sylvía sannarlega flottur knapi þar á ferðinni.




Svo sætar mæðgur.............mamman á nú heilmikið í þessu til lukku með stelpuna Fríða :)



Og hér koma ennþá fleiri monntnar mömmur og Hólakrakkar.
Til hamingju öll bæði mömmur og pabbar.

 

03.09.2010 23:45

Sýnishorn af útskrift.....



Þarna eru sætu Hólakrakkarnir mínir að útskrifast...............vantar bara Helga Eyjólfs.
Alma að útskrifast sem hestafræðingur og leiðbeinandi af fyrsta ári en Mummi og Halla María sem tamningamenn af öðru ári. Innilega til hamingju með áfangana elskurnar.

Ég sem sagt brunaði norður að Hólum í dag til að vera við útskriftina, er komin heim en frekar löt svo að þetta verður að duga í bili. Tók fullt af myndum sem að ég kem hér inná síðuna vonandi á morgun.



02.09.2010 11:16

Mikilvægar dagsetningar.



Tíminn líður hratt og óðum styttist í réttirnar svo það er eins gott að birta hér mikilvægar dagsetningar.
Farið verður í nauðsynlegan undirbúning á næstu dögum svo sem panta gott veður, huga að veitingum, dusta rykið af gítarnum og ýmislegt fleira........................

Fimmtudagurinn 16 sept smalað ,,inní hlíð og útá hlíð,, (skiljanlegt fyrir þá sem til þekkja)
Föstudagurinn 17 sept smalað Oddastaðafjall.
Laugardagurinn 18 sept smalað Hlíðar og Hafurstaðaland. Aðalsmaladagurinn.
Sunnudagurinn 19 sept réttað, vigtað og valið. Stóri kjötsúpudagurinn.
Mánudagurinn 20 sept sláturlömb rekin inn.
Þriðjudagurinn 21 sep lömb sett í slátur.

Hlökkum til að sjá ykkur og munum leggja okkur fram um að láta ykkur ekki leiðast.
Gott væri að heyra frá ykkur sem að eru væntanleg...............gott að vita hvort raða þarf uppá rönd eða stafla í gistingu.

01.09.2010 00:56

Jamm og jæja......


Allt í basli svo að það verður engin mynd á blogginu í kvöld, þið hugsið ykkur bara fallega mynd og segið mér svo afhverju hún er.

Stundum er ég hugmyndasnauð og á í mestu vandræðum með að finna eitthvað til að setja hér inn en núna hafði ég fullt af hugmyndum sem flestar voru nátengdar myndum.
Örugglega út af því að ég get ekki sett inn myndir núna. Bíður betri tíma.

Ég brá mér á kynningafund út að Breiðabliki fyrir stuttu, þar var Nýsköpunarmiðstöð Íslands að kynna verkefni sem að heitir Vaxtasprotar á Vestulandi.
Sannarlega sniðugt og skemmtilegt verkefni sem gaman væri að taka þátt í.

Ég var þó verulega hugsi eftir að hafa hlýtt á þetta góða fólk sem dældi á okkur hugmyndum um margt sem hægt væri að gera í sveitinni. Það rann upp fyrir mér sú gamal kunna staðreynd að líklega hefði ég yfirdrifið nóg að gera og þyrfti alls ekki að vera að þvælast af bæ til að fá fleiri hugmyndir.
Eftir að hafa verið hugsi í nokkurn tíma var ég öskureið já eins gott að þið hittuð mig ekki þá.
Það sem að erti mína ,,góðu,, lund var nefninlega það hvað það er ergilegt og fúllt að bændur séu alltaf í þeirri stöðu að þurfa að hugsa um að koma sér upp einhverri auka búgrein eða vinnu utan bús. Bændum vantar ekki vinnu þeim vantar tekjur góðir hálsar.
Til að gera langa sögu stutta og ykkur ekki graut fúl þá ætla ég að renna yfir nokkur starfsheiti sem að svona meðalbóndi verður að ráða við ef að allt á að fara vel hjá honum.

Bóndi = bóndi, trésmiður, járnsmiður, þúsundþjalasmiður, vélfræðingur, verkfræðingur, viðskiptafræðingur, lögfræðingur, markaðsfræðingur, fóðurfræðingur, jarðfræðingur, kynbótafræðingur, skipulagsfræðingur, dýralæknir, kjötiðnaðarmaður, kokkur, ræstitæknir og hagfræðingur. Bara svo eitthvað sé nefnt......................

Og að auki vera í góður formi andlega og líkamlega því að stundum bilar fjórhjólið og fýkur í frúnna.

28.08.2010 23:04

Skotist á Íslandsmót.



Þeir voru einbeittir félagarnir Jakob Sigurðsson og Alur frá Lundum enda að landa Íslandsmeistaratitli í slaktaumatölti.

Já ég smellti mér á Íslandsmót í dag og naut þess að horfa á glæsta gæðinga, enda fátt skemmtilegra. Keppnin var spennandi í öllum greinum og víða voru það ,,litlar,, kommur sem að skildu keppendur að. Jakob og Alur höfðu þó nokkra yfirburði í slaktaumatöltinu áttu frábæra sýningu og uppskáru 8,83 í einkun.
Í fjórgangi sigraði Mette Mannseth á Happadísi frá Stangarholti en þar sem að hún er ekki með íslenskan ríkiborgararétt þá getur hún ekki orðið meistari. Íslandsmeistaratitlinum hampaði því Elvar Þormarsson og gæðingurinn Þrenna frá Strandarhjáleigu en þau fóru löngu leiðina og komu upp úr B úrslitum í gær. Hreint frábær árangur hjá Þrennunni ungu.
Í fimmgangi var það Hinrik Bargason og Glymur frá Flekkudal sem að báru sigur úr bítum.
Annar varð Stefán Friðgeirsson og Dagur frá Strandarhöfði, en þeir félagar komu alla leið úr B úrslitum eins og Elvar og Þrenna. Mér finnst alltaf jafn gaman að sjá þá saman Stefán og Dag, flottir saman kallarnir.
Töltkeppnin var afar spennandi og hart var sannalega barist, oftast drengilega.
Kommur skildu fjóra efstu keppendur að en sigurvegarar urðu Viðar Ingólfsson og Tumi frá Stóra-Hofi. Fast á hæla honum komu þeir Sigurbjörn Bárðarson með Jarl frá Miðfossum og Jakob Sigurðsson og Árborg frá Miðey með 8,42 í einkun. Í fjórða sæti var Sigurður Sigurðarson og Kjarnorka frá Kálfholti með 8,41.
Ég var að flestu leiti sátt við úrslitin en verð þó að játa að ég hefði viljað sjá Jakob Sigurðsson og glæsihryssuna Árborgu frá Miðey sigra í töltinu.

Til hamingju flottu knapar og hestar með góðan árangur í dag.

27.08.2010 23:19

Tamningatryppin.........



Þegar ég er löt að skrifa er gott að hafa verið dugleg með myndavélina því þá geta myndir sagt meira en mörg orð. Hér á eftir koma myndir af nokkrum tryppum sem við erum að vinna með þessa dagana. Mörg eru aðeins stutt á veg komin en það getur samt verið gaman að skoða myndir af misjöfnum tamningastigum.
Hér að ofan er efnis foli sem heitir Hattur frá Eyrarbakka, hann er í eigu heiðurshjóna á Vestfjörðum.



Verður örugglega ánægður með sig kallinn þegar hann fer að ríða út fyrir vestan.



Hér er Nótt frá Reykjavík skemmtileg efnis hryssa með góðar gangtegundir.



Þarna er svo systir hennar Von frá Reykjavík sem dansar af kátínu og vinnugleði.



Og meira af Voninni góðu sem ég hef svo mikla trú á..............................



Skeggi Stælsson okkar skaust framhjá og auðvitað smelli ég mynd af honum líka.

Næstu daga ætla ég svo að kynna fleiri hross fyrir ykkur með þessu hætti, sjón er jú sögunni ríkari.

Í gær vorum við ,,túristar,, í Borgarfirði fórum á yfirlitssýningu uppað Miðfossum, skoðuðum folana okkar á Kistufelli og brunuðum svo um sveitirnar í góða veðrinu.
Já Borgarfjörðurinn er fallegur og ekki skemmir nú fyrir að hafa Hnappadalinn með.................í sveitarfélaginu. Verst hvað margir hafa gleymt því...................

Fullt af myndum væntanlegar á síðuna úr því ferðalagi.

24.08.2010 23:53

Slökun..........



Þarna á höfðinginn Gosi frá Lambastöðum góða stund, kannske er hann að hugsa um námið sem að hann og Mummi ætla að stunda á Hólum í vetur...............hver veit ?

Góður var dagurinn í dag tekið fullt af myndum sem að birtast fljóttlega hér á síðunni undir hnappnum ,,söluhross,,
Sum hrossin voru vel upplöggð fyrir myndatökur en önnur áttu svona dag eins og við öll þekkjum................engar myndir takk ég lít ekki nógu vel út:)

Í gær byrjaði hún Astrid okkar í skólanum á Hvanneyri, hún var orðin ansi spennt og eins gott að skólinn standi undir væntingum. Við söknum hennar og þá alveg sérstaklega hún Snotra sem að skilur ekkert í því að Astrid mæti ekki í hesthúsið eins og venjulega.
En hún kemur nú örugglega að kíkja á okkur fljóttlega.........................

Hér var rokið í það að slá há í dag sem verður svo rúllað á morgun...........nánar um það síðar.

23.08.2010 22:25

Melgerðismelar...



Um helgina brá ég mér í Eyjafjörðinn og dæmdi gæðinga á skemmtilegu móti sem haldið var á Melgerðismelum. Með mér dæmdu Halldór Svansson og Valdimar Ólafsson.
Veðrið var aðeins að stríða mótshöldurum strekkingur á laugardaginn og helli rigning á sunnudaginn og mátti sjá efstu toppa grána svolítið.



En veðrið beit ekkert á þessa jaxla sem að mótinu stóðu þeir bara klæddu þetta af sér.



Þetta duglega fólk var okkur dómurunum til aðstoðar og stóð sig með mikilli prýði. Einkaritarinn minn var húsfreyjan í Hólakoti hún Ester Anna sem er lengst til hægri á myndinni. Snildar ritari og frátekin ef að ég kem aftur í Eyjafjörðinn að dæma.



Þarna er svo maðurinn sem að hafði alla þræði í sýnum höndum og fórst það vel Jónas Vigfússon í Litla Dal.
Dýrmætt fyrir öll hestamannafélög að eiga svona menn, þarna er það vafla í mótslok.
Nafn Högna Bæringssonar kom ósjálfrátt uppí hugann þegar ég hugsaði heim í mitt félag.
Það var gaman að skoða mótssvæði þeirra Eyfirðinga og þá sérstaklega nýja kynbótavöllinn sem er mjög óhefðbundinn og skemmtilegur.
Þið verðið endilega að skoða hann ef að þið eigið leið um Melgerðismelana.
Ég verð að nefna móttökurnar sem að við dómararnir fengum á Melgerðismelum, þær voru í einu orði sagt frábærar. Veisla og dekur takk kærlega fyrir okkur, sérstakar kveðjur í eldhúsið.

Alltaf þegar ég kem heim af hestamótum sest ég niður með mótskrána, skoða og rifja upp hvað ég sá. Mig langar aðeins að deila vangavelltunum með ykkur. Tek það þó fram að þetta eru hugrenningar algjörlega óháðar tölum og bara mínar persónulegu skoðanir.

Ég ,,fann,, afar athyggliverðan hest sem að ég hef ekki séð áður eða veitt eftirtekt, þetta er stóðhesturinn Tristan frá Árgerði. Tristan er 10 vetra gamall sonur Orra frá Þúfu og Bliku frá Árgerði. Hann vakti athyggli mína þegar ég sá hann í A flokkskepninni og ekki minnkaði hún við að sjá afkvæmi hans á mótinu sem voru þó nokkur.
Það var Stefán B Stefánsson sem að sýndi hestinn.
Gaman væri nú að fá þennan stóðhest á vestulandið næsta ár.
Dagur frá Strandarhöfði hefur sjaldan verið betri en á þessu móti frábærar hreyfingar og léttari en oftast áður. Alltaf gaman að sjá hann og Stefán saman á vellinum.
Bjarni Jónasson var einnig með spennandi hest Laufa frá Bakka, son Smára frá Skagaströnd.

Í B flokknum og töltinu voru margir góðir gæðingar Logar frá Möðrufelli sonur Dósents frá Brún, Andvarasynirnir Flugar frá Króksstöðum og Rommel frá Hrafnsstöðum, Gletting Tristansdóttir frá Árgerði, Dalrós frá Arnarstöðum dóttir Mola frá Skriðu og margir fleiri.
Já alltaf gaman að spá í hross...................



20.08.2010 22:43

Fullt að frétta.......enginn tími til að blogga.

Það er í mörgu að snúast þessa dagana og lítill tími til ritstarfa en ég ætla að smella inn smá fréttum og bæta svo úr á næstunni.

Besta frétt vikunnar var að sjálfsögðu að Mummi stóðst inntökuprófið inná reiðkennaradeildina á Hólum. Hann fór með Fannar sinn frá Hallkelsstaðahlíð og Gosa frá Lambastöðum sem verða hans vinnufélagar í vetur.
Virkilega ánægjulegt þar sem að ekki leit nú vel út um tíma með þá kappana því þeir eru búnir að vera veikir lengi. Sko Fannar og Gosi. Til lukku með þetta töffarar.

Í dag var sónað frá Sporði frá Bergi og þaðan komu þrjár hryssur fylfullar hingað í Hlíðina.
Létt með 30 daga fyl, Þríhella og Dimma Baldursdóttir báðar með 21 dags fyl.
Bara spennandi.

Ólafur hótelhaldari á Eldborg kom ríðandi hér í dag með fríðu föruneyti og heldur suður á bóginn á morgun.

Stutt en verður að duga...............meira næst.

P.S er ekki á leiðinni á menningarnótt í Reykjavík.

15.08.2010 22:18

Stranda hvað???



Á laugardaginn var brunað norður á Strandir en þar var haldið heljar  ,,knall,, og hápunkturinn keppni í hrútaþukkli. Það eru forsvarsmenn Sauðfjársetursins sem að hafa veg og vanda að þessum viðburði sem er stór skemmtilegur.
Þarna kepptu helstu sauðfjárspekingar landsins í þukkli og hér eru snillingarnir komnir á pall.
Okkar maður hafnaði í þriðja sæti sem hlýtur að vera dómaraskandall :) Til hamingju Eiríkur og þið allir.
Það var fulltrúi dómnefndar Lárus Birgisson sem að afhenti verðlaunin.



Það var skilyrði að kyssa verðlaunahafann svo það er augljóst að konum mun fjölga mikið í keppninni á næsta ári.................ekki spurning nú tek ég þátt í keppninni á næsta ári.



Það er margt að sjá á Sauðfjársetrinu og þarna eru búsáhöld sem gaman væri að eiga.
Strokkur, hakkavélar, skilvinda, vigt, kleinupottur og margt fleira.



Þarna sá ég líka alvöru málgagnið..............veitti nú ekki af að hafa þennan í fullu fjöri núna.

Á leiðinni heim var boðið uppá þessa fínu leiðsögn og var komið við á Reykhólum hjá Guðmundi refaskyttu og frú. Þar var drukkið kaffi, spjallað og litið á nokkur stóð.
Á Reykhólum sá ég myndar fola undan Hvessi frá Ásbrú og Sunnu frá Grundarfirði.
Afar geðslegur foli og líkur mömmu sinni sem ég er alltaf svo hrifin af.
Það var gaman að koma við á Reykhólum og ekki síður að njóta leiðsagnar þeirra Magnússkógahjóna um sveitirnar í kring.



Við Reykhóla sá ég líka glæsi dráttarvélar, ég hef trú á að vinur minn hér fyrir innan fjallið yrði nú ánægður með þennan..................



.................þetta er sko Porsche.................



Mér fannst þessi aftur á móti flottastur, bensín traktor alveg eins og til var hér í Hlíðinni þegar ég var lítil.

Ég tók svolítið af myndum sem hafa verið settar inná síðuna undir ,,myndaalbúm,,

Vel þess virði að skreppa á Strandirnar og skoða Sauðfjársetrið.