04.04.2018 22:06

Ráðherra, rafmagn og frjálsar ástir.

 

Við hér í Hlíðinni fengum góða heimsókn í dag þegar Ásmundur Einar félagsmálaráðherra kom með fríðu föruneyti.

Þegar hann kom hér síðast var verið að reisa fyrstu sperruna í húsinu svo það hefur ýmislegt gerst síðan.

Að sjálfsögðu sýndum við þeim reiðhöllina og búfénaðinn en okkur sást yfir að bjóða þeim að leggja á og taka hring í höllinni.

Það verður gert í næstu heimsókn nú eða þegar formleg vígsla fer fram.

 

 

Páska hátíðin var vel nýtt hér í Hlíðinni en þá fengum við þá Guðgjöf að hemja rafvirkjan hjá okkur.

Og eins og við var að búast voru afrekin þó nokkur og erum við því vel upplýst eftir hátíðina.

Þrjár af fjórum ljósalínum komnar upp og birtan dásamleg.

Á myndinni má sjá hluta af umsvifunum sem voru í gangi.

 

En það hafa verið fleiri viðburðir hér á síðustu dögum og einn af þeim er framhald á sauðburði sem hófst í fyrra fallinu.

Það var sem sagt þann 9 mars sem að lambakóngarnir fæddust og hlutu nöfnin Blakkur og Hrappur.

Ekkert er vitað um faðernið en ljóst að Villi-Blökk mamma þeirra hefur hitt draumaprinsinn vel fyrir hrútaútgöngu bann.

 

 

Það var svo í dag stuttu eftir ráðherraheimsóknina sem hún Litla Flekka bar myndar tvílembingum.

Faðernið á þeim er alveg á hreinu.

Forystu hrúturinn Gísli hreppstjóri hafði stutta viðkomu í fjárhópnum á leið sinni úr fjallinu og inní hús.

Ekki lengi að því sem lítið er............... og þó þetta eru vænstu lömb.

Þessi litfögru lömb hafa verið nefnd og að sjálfsögðu eru þetta Ásmundur Einar og Framsókn.

Já það er ekki bara byggingin sem ráðherra þarf að líta á í næstu ferð .................

Samkvæmt því sem að Guðbrandur lambateljari sagði okkur er von á að tvær kindur í viðbót beri fyrir hefðbundinn sauðburð.

Hrúturinn Gísli hreppstjóri ber ábyrð á annari en hin hefur notið sín í frelsinu á Skógarströndinni.

Já það er líf í Hnappadalum.