25.03.2014 22:22

Af mörgu er að taka þegar ritstýflan hefur verið við völd.



Trilla frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Gaumur frá Auðsholtshjáleigu, móðir Skúta frá Hallkelsstaðahlíð. Eigandi Mummi Skúla, knapi og yfirþjálfari Astrid okkar Skou Buhl.

Já Mummi skrapp norður að Hólum að skoða ,,dömurnar,, sínar og eins og sjá má eru þær bara nokkuð brattar.



Þarna er Astrid á Framtíðarsýn frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Gosi frá Lambastöðum og móðir Sunna frá Hallkelsstaðahlíð.  Mér sýnist bara fara vel á með þeim skvísunum.




Mummi fór á námskeið hjá Júlio Borba sem haldið var í Gegnishólum hjá þeim Olil og Bergi.
Júlio er frá Portúgal og hefur komið hingað til lands í nokkur ár og haldið námskeið við afar góðan orðstýr.
Á myndinni eru Júlío og Olil mjög einbeitt og greinilega með athyglina við eitthvað spennandi. Námskeiðið var frábært eins og öll umgjörð og aðstaða hjá Gegnishólabændum.




Við smelltum okkur einnig á sýnikennslu sem haldin var á Miðfossum en þar var það Olil Amble sem fræddi mannskapinn. Á myndinni hér fyrir ofan er hún að útskýra með miklum tilþrifum eitthvað úr heimi reiðmennskunnar.
Olil mætti með tvö hross með sér þau Álfinn frá Syðri Gegnishólum og Tíbrá frá Keltilsstöðum. Vel skipulögð og fræðandi sýnikennsla með góðum hestum og vandaðri framsetningu. Allt vel undirbúið og ekki tilviljun sem réði efnistökunum og útfærslunum.
Takk fyrir skemmtilega kvöldstund.

Það hefur verið líflegt að venju hér í Hlíðinni þó svo það hafi ekki skilað sér allt hér inná síðuna.
Endurmenntun gæðingadómara sem haldin var í Reykjavík heppnaðist vel og bara spennandi tímar framundan í þeim geira. Mýkt og sanngirni ráða vonandi ríkjum á þeim vettvangi sem allra fyrst.
Ég er búin að dæma nokkur skemmtileg mót síðustu vikurnar og sjá heilmikið af góðum hestum og knöpum.
Ísmótið Svellkaldar konur var skemmtilegt að vanda og margar konur vel ríðandi, alltaf gaman að dæma það mót.
Já það hefur bara verið gaman að dæma öll mótin sem ég hef smellt mér á í vetur.

Og lífið er ekki bara hestar ó nei, það var brunað í ,,leikhús,, í Lyngbrekku á sunnudaginn til að sjá uppfærslu leikfélagsins á leikverkinu ,,Stöngin inn,,
Til að gera langa sögu stutta þá get ég svo sannarlega mælt með því að fólk skelli sér á sýninguna. Ég skemmti mér konunglega og hló fyrir allan peninginn þó að söguþráðurinn sé ekki sá dýrasti sem ég hef séð.
Það er snildin ein að sjá hvað áhugaleikhópar geta gert skemmtilega og flotta hluti.
Svo skemmir ekki fyrir ef að maður þekkir leikarana t.d eru þarna meðhjálparar, bændur, vínbúðarkona, verkalýðsfélagskrifstofukona, sjúkraþjálfari og margir fleiri.
Hljómsveitin er undir stjórn Steinku Páls og spila þau Abba lögin af miklum móði.
Hreppagrobbið læddist aðeins að mér þegar ég taldi stolt upp alla Kolhreppingana sem taka þátt í sýningunni. Flottir sveitungarnir mínir.
Já já það er söngur, dans og hörkufjör í þessari sýningu. Þið verðið bara að skella ykkur.