29.12.2013 22:27

Jóla ............



Jóla jóla já þessar voru aldeilis í stuði þegar kom að því að opna pakkana á jólakvöldið.
Eins og venjulega smelltum við okkur uppí ,,það efra,, og fögnuðum jólunum með ungum og öldnum.
Áttatíu ára aldursmunur gerir lífið bara skemmtilegara og þannig var það einmitt þessi jólinn.



Sumar jólagjafir voru vinsælli en aðrar og voru dömurnar í þessum bangsagöllum allt kvöldið. Eftir mikið ofát og erilsama daga var ekki laust við að ég öfundaði þær af þessum búningum. Hefði örugglega verið gott að sofna í þessu undir bók í sófanum.

Bækur já vel á minnst ég fékk skemmtilegar bækur í jólagjöf þar stendur uppúr bókin Sauðfjárrækt á Íslandi sem er aldeilis frábær. Vilborg Arna pólfari og Illugi Jökuls klikka ekki frekar en við var að búast og Skagfirskar skemmtisögur eru klassi.
En að sjálfsögðu hafði ég Guðna með í rúmið á jólakvöldið, hvað annað ?

Jólaveðrið og færðin eigum við nokkuð að ræða það ?
Jóladress húsfreyjunnar var föðurland, lambhúshetta og ullarsokkar, bara ekki nokkur leið að vera meiri pæja en það í þessu helv.... veðráttu.
Það bíður bara betri tíma og þá verður það eitthvað skal ég segja ykkur.

Og svo komu kindur í dag.............. já það fréttist af kindum í Höfðalandi.
Því brunuðu Mummi og Ásberg Hraunholtabóndi af stað í morgun og náðu þremur kindum með hjálp Dalsmynnisbænda.
Alltaf gaman að fá kindur og heldur potast nú talan niður á við sem vantar.

Annríkið  hjá hrútunum er heldur að minnka þó með undantekningum, Loðmundur er kominn í sjálftekið frí og á meðan er það Borgarfjarðarsjarmurinn Klossi sem leysir hann af.
Ástarbrandur hefur áhyggjur af fyrirliggjandi verkefnum á öðrum bæjum en vonar það besta.
Vökustaur er kominn með fjarrænt augnaráð og er farinn að þrá rólegheit og kynlífsbann.
Ástarseiður lítur út eins og vannærð fyrirsæta þó með horn og Dimmir hefur útlit slagsmálahunds frá níunda áratugi síðustu aldar.
Rósinkar er reglulega rólegur og rómantískur.
Annars er allt gott að frétta af hrútastofninum og kynbótastarfinu í fjárhúsunum.