27.08.2013 14:27

Er að koma haust ???


Nú fer ferðahópunum ört fækkandi þetta sumarið enda styttist óðfluga í haustið.
Já veðurspáin hundleiðinleg og bændur fyrir norðan að leggja af stað í smalamennskur mikið fyrr en áætlað var. Vonandi rætist spáin ekki í þetta sinn en skiljanlega eru bændur smeikir.
Hér fylgjumst við bara náið með spánni og vonum það besta.



Við fengum góða gesti um daginn sem tóku reiðtúr uppí fjall, þarna eru þau við Fossakrókinn.
Lotta okkar sem einu sinn var hér hjá okkur kom í heimsókn með sínu fólki og tók út hesta og menn hér í Hlíðinni.  Takk fyrir komuna, það var gaman að fá ykkur í heimsókn.



Mér finnst haustið alltaf byrja þegar krakkarnir fara í skólann en þó getur verið svo mikið eftir af góðum og skemmtilegum dögum sem tilheyra sumrinu. Svoleiðis verður það núna.
Nú er Astrid farin norður að Hólum en hún er að hefja nám á reiðkennarabraut skólans.
Þarna er hún á Fannari vini sínum en þau kepptu á Bikarmóti vesturlands um daginn með ágætis árangri. Góða ferð í Hjaltadalinn Astrid.



Þessi mynd er líka tekin á Bikarmótinu þegar keppendur í fimmgangi tóku á móti verðlaunum. Mörg svipbrigði í gangi hjá þeim Styrmi í Gufudal, Astrid og Gunnari í Þverholtum.



Þarna eru keppendur í fjórgangi eftir úrslitin, myndin er tekin ofan úr brekku svo sjónarhornið er ekki gott.

Við sóttum Karúnu, Létt og Rák ásamt folöldunum þeirra í síðustu viku en þær hafa eytt sumrinu með gæðingnum Ölnir frá Akranesi. Heimsóknun hefur skilað tilætluðum árangri og voru þær allar sónarskoðaðar með fyli.

Veðrið .....................nei ég ætla ekki að tala um það...................og þó það er bara eitt orð sem þar á við RIGNING................