27.04.2012 14:37

Gamalt og gott



Að fara í gegnum gamlar myndir er ódýr og góð skemmtun en það hef ég einmitt verið að gera að undanförnu. Smelli hér inn nokkrum sýnishornum sem ég rakst á við þá yfirferð.

Myndin hér að ofan er af Sveinbirni nokkrum Hallssyni og Jóel bónda á Bíldhóli, þarna eru þeir í brekkunni á Nesoddamóti. Það er að sjá þeir hafi skemmt sér afar vel.


Þessi er aftur á móti tekin á árshátíð Hestamannafélagsins Glaðs í Búðardal. Þarna eru þeir Jón Gíslason frá Mýrdal (Jón Mýri) og Kjartan bóndi á Dunki. Reffilegir að vanda og ekki voru þessar árshátíðir þeirra dalamanna neitt slor enda er þeirra sárt saknað.



Þá er það þorrablót í Lindartungu þau heppnast yfirleitt með glæsibrag og eru afar eftirsótt.
Á þessari mynd má sjá Sigurð bónda í Hraunholtum taka snarpan vinstri snúning, Ásberg í Hraunholtum, Gísli hreppsstjóri og ýmsir fleiri tjútta svo af miklum móði.



Þarna er svo ein af ,,hljómsveitum húsins,, sem spilaði annað hvort á boðsballi eða þorrablóti í Lindartungu.
Sigvaldi Fjeldsted í Ásbrún, Steinunn Pálsdóttir frá Álftártungu, Skúli bóndi og Sigurður Axel sem þá bjó á Hvanneyri.



Göngudagur fjölksyldunnar var árviss viðburður sennilega er þessi mynd tekin á einum slíkum. F.v Sigurbergur Pálsson frá Haukatungu, Guðmundur Halldórsson, Syðri-Rauðamel og Steinar Guðbrandsson frá Tröð. Eins og þið sjáið var það Guðmundur sem sá um leiðsögnina og að allt færi vel fram enda var þarna verið að ganga uppá Rauðukúluna.


Þá eru það myndir úr Kaldárbakkarétt, hér eru þau Sesselja í Hraunholtum og Guðmundur á Rauðamel að spjalla í blíðunni.


Það gerðu líka nágrannarnir Páll Júlíusson í Hítarnesi og Jónas Jóhannesson á Jörfa.



Á þessari mynd eru f.v Páll í Hítarnesi,  Júlíus Jónsson, Jón Júlíusson, Áslaug Sveinsdóttir og Sævar Úlfarsson.

Já það er gaman að skoða í gamla myndakassa.