26.01.2011 21:00

Konungleg útför í þágu vísindanna

Þetta var nú góður dagur.
Það var gott veður hér í Hlíðinni mikið riðið út, þjálfað og tekinn villtur rekstur í dag.
Ég hef trú á að bæði menn og hestar sofi vel í nótt eftir allt þetta at.
Meðal aldur hestanna í hesthúsinu er ekki hár um þessar mundir stór hluti á fjórða vetri og annað eins á fimmta vetri síðan örfá eldri.
Flestir þessir fjórfættu nemendur eru komnir vel á veg í tamningu og sumir lofa bara nokkuð góðu.
Nú bíð ég bara frétta af stóðinu mínu á Hólum spurning hvort að þögnin lofi góðu eða sé til komin vegna einhverra hamfara.
Fyrirmyndarhestur dagsins var hann Vörður minn og það hefur sko ekkert með eignarhald að gera.

Fyrir nokkrum dögum gerðist það að ein kollan í fjárhúsunum gaf upp öndina, svo sem ekki í frásögu færandi en læt það flakka. Heilsu Kollu hafði hrakað mjög skyndilega svo að vart gafst tími til mikilla aðgerða. Þar sem að hún var ung og átti líka að vera spræk og langlíf hugsaði ég með mér að rétt væri að láta kryfja Kollu til að fá úr því skorið hvað hefði orðið henni að bana. Ég hef stundum séð það á prennti að ,,auðvita,, eigi bændur að láta rannsaka gripi sem að drepast af óútskírðum ástæðum.
Ég hringdi í Rúnar dýralæknirinn minn og bar þetta undir hann, hvatti Rúnar mig til að kanna málið og ekki síst verðið sem að mér fannst á þessum tímapunkti vera smáatriði.
Við hvattninguna efldist ég til mikilla muna og fylltist ábyrgðartilfinningu af flottustu gerð. Nú skyldi vísindunum lagt lið í þágu íslensku sauðkindarinnar. Göfugt málefni það.
Ég snarast inní bæ finn símanúmerið á Keldum og hringji.
Eftir að hafa þvælst á milli manna og kvenna um símalínur fyrirtækisins í nokkurn tíma fékk ég loks samband við konu sem svarað gat mínum spurningum.
Hvað kosta að kryfja kind og hvernig á ég að senda hana ?
Ekki stóð á svarinu.
Það kostaði sem sagt kr 43.000.- að kryfja Kollu og æskilegt væri að ég bara renndi með hana í bæinn sem fyrst svo að hún yrði ,,fersk,, og fín í aðgerðinni.
Kr 43.000.- plús 130 km x 2 eru 260 km x kr 92.- gera kr 23.920.- samtals: kr 67.180.-
,,Já sæll,, eins og góður maður sagði eitt sinn.
Margt flaug í gegnum kollinn á mér þegar hér var komið við sögu og sennilega hefur þögnin í símanum verið nokkuð þrúgandi því blessuð kona tjáði mér að sennilega gæti ég fengið 70% afslátt. Þá skyndilega rofaði til í kollinum á mér og ég náði að anda að mér þokkalegum skammti af súrefni.  Uppí hugann kom mynd af skeggjuðum og þreyttum Steingrími Joð með  staurblankan ríkissjóð á herðunum.
Ó nei............ ekki ætlaði ég að bera ábyrgð á frekari þrengingum á þeim ,,bænum,, með ónauðsynlegum vísindarannsóknum sem að sennilega yrðu í besta falli í mína þágu og sauðkindarinnar.
Sumt krefst einfaldlega tillitsemi.
Ég andaði djúpt gerði röddin eins elskulega og ég gat kvaddi síðan konuna með þökkum en gleymdi að segja henni að Kolla kæmi ekki til hennar þar sem að ljáðst hefði að safna í vísindasjóð henni til handa.
Líklegt er að andlát Kollu hafi stafað af einhverjum algengum kvilla en óneitanlega hefði verið fróðlegt að fá nánari upplýsingar um það.
Nú er Kolla komin undir frost og klaka en hún fékk afar virðulega útför allt að því konunglega því að ýmislegt er nú hægt að gera fyrir minna en 67.000 þúsund krónur.
Já það er ekkert grín að deyja í þágu vísindanna.