06.08.2010 22:20

Kolskör komin heim.



Hér sé stuð........................

Það getur verið gaman að lífinu þrátt fyrir hestapest og ýmsar hremmingar, um að gera njóta lífsins og leika sér.

Í gær fórum við innað Lambastöðum og heilsuðum uppá menn og málleysingja.
Allt stóðið var rekið heim hófar snyrtir og allir fengu  ormalyf.
Það er alltaf jafn gaman að skoða stóð sérstaklega þegar maður er farinn að þekkja heilmikið af gripunum. Á Lambastöðum eru hrossin svo þæg og meðfærilega að svona ferð er bara skemmtiferð. Allt gengur eins og í sögu þrátt fyrir að hross á öllum aldri séu meðhöndluð.
Margt er spennandi í stóðinu svona til að nefna nokkur tryppi þá eru ungir folar annar undan Glotta frá Sveinatungu og hin undan Sólon frá Skáney þarna eru líka fallegar dætur m.a Dyns frá Hvammi, Arðs frá Brautarholti og Blæs frá Hesti.
Fjögur tryppi komu til okkar í gær og eru nú að stíga sín fyrstu spor í ,,tamningavinnunni,, sinni. Þetta eru þrjár hryssur og einn hestur bara spennandi tryppi.
Takk fyrir okkur Lambastaðabændur.

Að koma inní hesthúsið þessa dagana líkist mjög leikskóla allt fullt af frumtamningatryppum.  Í gærkveldi þegar við komum í hesthúsið eftir venjulegan tíma kveiktum ljós og komum með ný hross fór kliður um húsið alveg eins og þegar órói færist yfir stóran krakkahóp. Já það var allt öðru vísi en þegar eldri og reyndari verða fyrir ónæði.

Í dag kom hún Kolskör heim með Kalsa sinn en hún hefur verið í girðingu norður í Víðidal hjá Arði frá Brautarholti. Afraksturinn var góður 22 dag gamalt fyl sem ég trúi og vona að sé hryssa en verð að sjálfsögðu líka ánægð með þó svo að það reynist hestur.
Kalsi litli sonur Aldurs frá Brautarholti hefur líka stækkað helling og er bara sperrtur.

Síðustu viku eða svo hefur verið algjör dekur tími í húsverkum á þessu heimili kökur og brauð hafa bakast, þvottur verið þveginn og ýmislegt fleira gerst sem gott er að losna frá.
En í dag fóru hjálparhellurnar aftur til síns heima svo að nú verða bændur og búalið að standa sig í húsverkunum.
Takk fyrir okkur mamma og Sverrir.