Sauðfjárræktin í Hallkelsstaðahlíð
Stofninn frá miðri síðustu öld.
Sauðfjárræktin í Hallkelsstaðahlíð á sér langa sögu, en sá stofn sem nú er ræktað útaf á ættir sínar að rekja í Vestur- Barðastrandasýslu. Árið 1950 í kjölfar niðurskuðrar vegna mæðuveiki var sóttur nýr stofn m a frá bæjunum Vesturbotni, Hvestu og Fífustöðum í Barðastrandasýslu.
Þennan stofn hafa svo bræðurnir Einar, Ragnar og Sveinbjörn Hallssynir ræktað með góðri aðstoð áhugasamra ættingja þar til að við tókum við. Stofninn sem við fengum var góður svo það er eins gott að njóta leiðsagnar þeirra bræðra áfram.
Vetrarfóðrað fé er um 700.
Okkar markmið í sauðfjárræktinni er að rækta afurðarmiklar og frjósamar ær. Ekki er verra að viðhalda litum og sérstökum afbrigðum þó ekki á kostnað afurða. Til gamans má geta þess að rúmlega 30% fjárstofnsins er mislitur. Flestir grunnlitir sem þekkjast í íslenska fjárstofninum finnast í hópnum. Markmiðið er að hafa 2-3 forustuær og annað eins af ferhyrndum ám. Á hverju ári nýtum við okkur þjónustu hrútastöðvarinnar og sæðum nokkra tugi áa til að bæta stofninn.
Til gamans má geta þess að við notum mismunandi mörk eftir því af hvaða kyni (ætt) kindin er. Þannig eru í notkun nokkur mörk sem hafa verið um margara áratuga skeið í fjölskyldunni. Öll mörkin sem notuð hafa verið um langt skeið eiga það sameiginlegt að hafa alltaf markið tvístíft aftan hægra. Á vinstra eyra eru svo mismunandi mörk.
Á árum áður þegar brennimörk á horn voru notuð hér í Hlíðinni var það bæjarnúmerið sem ennþá er í fullu gildi 19SH1 sem smellt var á annað hornið og síðan HL'IÐ á hitt.
Ekki hefur verið brennimerkt hér síðan í kringum 1970 en þá man ég eftir þessum viðburði sem var í huga smá stelpuskottu mjög spennandi. Þess vegna hefur því skotið uppí hugann öðru hverju hvort við ættum ekki að endurvekja þennan sið og prófa að brennimerkja. En það hverfur mjög fljótt úr huganum aftur þegar ég rifja upp hvað kókósbollur voru góðar í minningunni alveg þangað til ég smakkaði þær aftur.
Einar heitinn móðurbróðir minn var mikill áhugamaður um mörk og markaskrár.
Við tækifæri mun ég bæta inn hugleiðingum og frásögnum þar um.