26.10.2009 23:03

4x4 eru ekki bara drif heldur líka fjórir ferhyrndir.



Já hann er ekki bara ferhyrndur hann Ferningur það hefur sko komið í ljós að undanförnu.

Við fengum lömb undan átta kindum og honum síðast liðið vor, fjölkvænið heldur skorði við nögl út af hornunum fjórum. En útkoman hreint frábær kindurnar allar með tveimur lömbum, þungi og flokkun með ágætum. Einnig voru sónarskoðaðar þrjár gimbrar undan honum og þær komu mjög vel út. Ég tek það skýrt fram að það er ekki stefnan að fjölga ferhyrndum kindum neitt að ráði hér en mér er mikið í mun að viðhalda þessu kyni þar sem það er komið frá föður mínum heitnum. Ekki skemmir því fyrir að þetta séu góðar og gjöfular kindur sem reyndar eru í eigu Mumma. Ég er bara svona faglegur kynbótarolluráðgjafi hjá Mumma og að sjálfsögðu á ofurlaunum hjá honum eins og ráðgjöfum ber.

Ég fór inni Búðardal á laugardaginn að fylgjast með rúningsmönnum etja kappi og einnig til að hitta skemmtilegt fólk. Það tókst svo sannarlega því þarna voru saman komin hátt í 500 manns. Skemmtunin fór fram í nýrri reiðskemmu Glaðsmanna og heppnaðist í alla staði vel.
Það hefur verið frábært að fylgjast með hvernig uppbyggingin á félagssvæði Hestamannafélagsins Glaðs hefur farið fram. Þarna er kominn góður keppnisvöllur og nú reiðskemma. Eftirtektarvert  er að þetta hefur að stórum hluta verið unnið í sjálfboðavinnu.
Já það mættu nú stærri og fjölmennari félög eitthvað læra þarna hjá þeim Glaðsmönnum.
Innilega til hamingju með þennan áfanga Glaðsfélagar og aðrir Dalamenn þetta hús á örugglega eftir að nýtast ykkur vel.

Myndir eru væntanlegar frá þessari fínu hátíð.

Garparnir litlu Léttlindur Hróðsson og Blástur Gustsson voru teknir hér heim um helgina.
Á næstunni verður þeim gefið auga og í framhaldi af því ráðnir í hlutverk við hæfi.
Þyrfti nú að smella á þá mynd svo að þið sæuð þó ekki væri nema litina.