12.07.2009 23:20

Bjargvættir, afmæli og stjórnlausar útihátíðir.



Góðir Íslendingar við sauðkindurnar höfum haldið í ykkur lífinu í gegnum aldirnar, fætt ykkur og klætt......................o... er ekki komin lengra með áramótaræðuna. En er ekki svipurinn góður? Svona föðurlands eða forsetalegur.

Þetta er hún Fáséð litla heimalingur sem hefur sett sig þarna í flotta forsetastellingu, hún er sannfærð eins og ég að íslenska sauðkindin, bændur, sjómenn og verkamenn séu líklegir til að færa þjóðina til betri vegar. Stéttir sem eru ýmsu vanar hafa breið bök og sterk bein.
Myndina tók vinkona okkar hún Ansu frá Finnlandi.

Undanfarna daga hefur blíðan í Hlíðinni verið einstök, já jafnvel svo mikil að ég fór úr flíspeysunni. Það er ákveðinn mælikvarði annara ábúenda hér að sannarlega sé skæð hitabylgja að ganga yfir. En grínlaust rúmlega 20°hiti, sól, logn og blíða það er nú alveg á mörkunum fyrir fjallabúa með lélegt termó. En svo kom rok í dag og ég er strax byrjuð að kvarta ógjörningur að gera mér til hæfis.

Heyskapurinn potast áfram búið að rúlla niður á Rauðamel, Melum og Haukatungu. Og ef að Kári lofar verður klárað í nótt á Kolbeinsstöðum. Ég lifi í voninni að heyið sem var slegið hér heima í gær verði ekki fokið allt útí veður og vind á morgun.

Mummi átti afmæli í gær varð 23 ára gamall, ég er nú frekar efins svona ykkur að segja um að það sé rétt. Þetta getur varla verið ? Það er alveg örstutt síðan hann fæddist allavega finnst mér það. Man það eins og gerst hafi í gær. Svo eldist maður ekki neitt sjálfur....... skrítið. Það gerast bara svona skrítnir hlutir sem engin skýring er á t.d verður lengra uppí ístæðið, hestarnir stækka þannig að hoppið berbakt verður hærra, maður þarf meira súrefni til að hlaupa og elta hrossin og hendurnar styttast og eru ekki nógu langar til að halda lesefninu í réttri fjarlægð. Svo kíkir maður í spegilinn..............jú hann Mummi minn varð sannalega 23 ára í gær það er enginn vafi.

Það var afar líflegt á tjaldstæðunum hjá okkur um helgina margir góðir gestir sem voru sér og sínum til mikillar fyrirmyndar.
Ófeigur og Þorri búa nú um stundarsakir við skert persónufrelsi þeir urðu nefninlega uppvísir af því að fara á eigin vegum á útihátíð á tjaldstæðið. Græddu þeir félagarnir pylsur og ýmislegt góðgæti sem að þeim líkaði vel. Verst þótti þeim hvað eigendur þeirra voru þröngsýnir og leiðinlegir að leyfa þeim ekki að njóta þessara velgjörða lengur.
Það er ekki alltaf samhljómur um það hjá unglingum og forráðamönnum þeirra hvenær sé tímabært að leyfa frjálsar ferðir á útihátíðir.