07.07.2009 21:36

Góður Hlátur og aukinn Arður.



Þarna sjáið þið strokufanga á heimleið.

Nokkur af tryppunum okkar fengu smá útrásarveiki og lögðu af stað í heimsreisu að hætti útrásarvíkinga. Skynsemin náði þó fljótt yfirhöndinni hjá þessum folum og því ákváðu þeir að hunskast heim. 
Myndin er tekin 23 júní 2009.

Ekki byrjaði nú heyskapurinn gæfulega rigning í morgun og því lítið rúllað í dag. En veðurspáin er góð svo að þetta stendur allt til bóta.

Hún Létt átti rauðan hest í dag undan Arði frá Brautarholti, það var búið að bíða lengi eftir þessu folaldi. Gullfallegur hestur og að sjálfsögðu ánægja annað væri fullkomið vanþakklæti. Verð nú samt að játa bara svona okkar á milli að ég var að vona að þetta yrði skjótt hryssa.
Nafnaval er í vinnslu.

Það var mikið riðið út í dag enda gott veður. Fyrirmyndarhestur dagsins var hann Hlátur minn næmur og skemmtilegur foli undan Karúnu minni og Vetri sem nú er frúarhestur í Borgarnesi.

Nokkrir veiðimenn börðu vatnið í dag með góðum árangri og brostu breitt þegar þeir sögðu frá aflatölum dagsins.